Í dag urðum við Eliza þeirrar ánægju aðnjótandi að taka á móti fólki sem fengið hefur íslenskan ríkisborgararétt á þessu ári. Við óskuðum þessum samlöndum okkar til hamingju með íslenskt ríkisfang og öll þau réttindi og skyldur sem því fylgir.
Í stuttu ávarpi minnti ég líka á mikilvægi þess að heilbrigð ættjarðarást og skilgreining á íslensku þjóðerni snúist um víðsýni og umburðarlyndi, fjölbreytni og frelsi, samstöðu, samúð og samkennd. Eliza tók í sama streng og vék einnig að þeirri áskorun að læra íslenska tungu sem gerist ekki á svipstundu.
Þetta var indæl stund og maður gat ekki annað en fyllst aðdáun á þessum Íslendingum sem vilja láta gott af sér leiða, sjálfum sér og öðrum til heilla. Samfélagið verður öflugra fyrir vikið.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 12. maí 2024.