Af mörgu er að taka þegar farið er yfir viðburði liðinnar viku. Á þriðjudaginn var tókum við Eliza á móti fólki frá Palestínu sem fengið hefur skjól hér á landi á grundvelli ákvæða stjórnvalda um fjölskyldusameiningar. Sum þeirra eru nýkomin til landsins á flótta undan skelfilegum aðstæðum í stríðinu á Gasa. Við buðum þau velkomin og lýstum þeirri von að sem íbúar þessa lands fái þau sömu tækifæri og aðrir til þess að láta gott af sér leiða, til heilla fyrir sig sjálf og samfélagið allt.
Tveimur dögum síðar átti ég fund með Heru Björk Þórhallsdóttur söngkonu þar sem við ræddum meðal annars táknræn mótmæli og samband listar og stjórnmála, óvægna umræðu á samfélagsmiðlum, sem engu skilar, og þau sterku bein sem getur þurft til að þola þá ágjöf. Einnig þakkaði ég Heru framlag hennar í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva að fornu og nýju.
Miðvikudagurinn var frekar annasamur. Fyrst flutti ég opnunarávarp á alþjóðaráðstefnu á vegum Rannsóknarsetursins Eddu við Háskóla Íslands. Þar var sjónum einkum beint að hlutverki Norðurlanda á alþjóðavettvangi. Annað ávarp af sama tagi flutti ég svo á málþingi um kynferðisofbeldi á Íslandi og önnur áföll sem haldið var við Háskólann í Reykjavík. Á málþinginu var fjallað um niðurstöður rannsókna sem unnið hefur verið að undanfarin ár og ég hef fengið að fylgjast með.
Eftir það lá leiðin í Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu, í Reykjavík. Því menntasetri kynntist ég við upphaf minnar forsetatíðar. Þarna fær fólk tækifæri til að hefja nám á ný eftir hlé vegna sjúkdóma, slysa eða annarra áfalla. Árangur af starfi Hringsjár er ótvíræður. Við útskrift hverju sinni hef ég heyrt fallegar og magnaðar reynslusögur nemenda. Þau mæta einatt með brotna sjálfsmynd en fá nám og aðstoð, sem dugar, og halda svo út í lífið staðráðin í að sýna sjálfum sér og öðrum hvað í þeim býr. Mér þykir innilega vænt um að hafa öll þessi ár getað óskað nemendum Hringsjár til hamingju með sinn sigur og starfsliðinu fyrir þeirra drjúga starf í þágu samfélagsins.
Síðdegis þennan dag var svo komið að móttöku fyrir Félag kjörræðismanna á Íslandi sem fagnar 60 ára afmæli um þessar mundir. Í stuttu ávarpi þakkaði ég gestunum góðu fyrir ómetanlegt starf þeirra í þágu almennings og alþjóðasamstarfs sem fulltrúar erlendra ríkja á íslenskri grundu, og sömuleiðis fyrir gott samstarf undanfarin ár.
Á fimmtudaginn var átti ég fund með Sindra Viborg, formanni Tourette-samtakanna á Íslandi og baráttumanni fyrir aðgerðum gegn einelti í skólum og víðar í samfélaginu. Ég hef áður rætt við Sindra um það þjóðþrifamál og var hollt að fara yfir mögulegar leiðir í þessum efnum, skyldur menntastarfsfólks, foreldra og forráðamanna og annarra.
Síðastliðinn föstudag setti ég alþjóðlega skautamótið Icecup – Camp 2024 sem haldið er í Egilshöll í Reykjavík. Íþróttafélagið Ösp stendur að viðburðinum í samvinnu við Special Olympics á Íslandi og Skautasamband Íslands. Þátttakendur koma frá öðrum Evrópulöndum og Norður-Ameríku. Ösp er íþróttafélag án aðgreiningar sem sinnir þó helst þörfum fatlaðra og þeirra sem falla af einhverjum ástæðum ekki inn í hópinn annars staðar. Í máli mínu minnti ég á mikilvægi þess að styðja við og efla enn frekar íþróttaiðkun fatlaðra.
Ekki læt ég hjá líða að nefna að á annan í hvítasunnu fórum við Eliza á frumsýningu Snertingar, þeirrar undurfallegu kvikmyndar Baltasars Kormáks eftir samnefndri sögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar þar sem Egill Ólafsson fer með aðalhlutverkið af stakri snilld.
Einnig þakka ég öllum sem komu að skipulagi og framkvæmd Mýrdalshlaupsins á laugardaginn var. Þar hljóp ég styttri vegalengdina sem var í boði og sá eins og aðrir hlauparar hversu vel heimafólk stendur að þessum skemmtilega viðburði.
Í blálokin nefni ég svo að í gær var ég sæmdur gullmerki íslensku skátahreyfingarinnar við gleðilega athöfn í útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn. Um leið afhentum við Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi þeim skátum viðurkenningarskjal sem lentu í hremmingum á alþjóðamóti í Suður-Kóreu í fyrrasumar, slæmu veðri og óviðunandi undirbúningi skipuleggjenda.
Frekari upplýsingar má að vanda finna á vefsíðu embættisins, forseti.is. Góðar stundir.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 27. maí 2024.