Í blíðviðri á Þingvöllum í dag naut ég þess að leiða sögugöngu og hlýða á fagran söng af ýmsu tagi. Tilefnið var auðvitað hátíðahöld á 80 ára afmæli lýðveldis. Við hófum leikinn á Hakinu, námum staðar við Lögberg og lukum svo ferðinni á Valhallarreitnum.
Ég stiklaði á stóru í sögu staðarins, lands og þjóðar. Nefndi meðal annars að við megum ekki skapa glansmynd af liðinni tíð sem ekki stenst skoðun þegar vel er að gáð. Þá benti ég á allt það sem hefur breyst frá því að þjóðin fagnaði stofnun lýðveldis hinn 17. júní 1944. Við búum við aukið frelsi og fjölbreytni og megum vona að framtíðin verði björt. Við búum í sjálfstæðu lýðveldi og njótum um leið góðs af alþjóðasamvinnu. Við eigum okkar rógróna menningararf, sögu og tungu en getum líka fagnað ferskum straumum sem eiga sér rætur hér heima og í víðri veröld. Við megum hampa okkar heilbrigðu ættjarðarást sem skal þá vera án drambs og yfirlætis og líka laus við ótta eða illsku í garð annarra.
Fjöldi fólks skundaði á Þingvöll í dag. Í sögugöngunni tókum við lagið og fjöldi kóra sömuleiðis, auk annars tónlistarfólks. Þá nefni ég sérstaklega fallega stund í Almannagjá þegar fjallkonan flutti ávarp eins og til stóð fyrir hartnær 80 árum en fórst þá fyrir. Við erum alltaf að reyna að gera betur, við Íslendingar.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 16. júní 2024.