Fréttapistill | 24. júní 2024

Fyrstu Vigdísarverðlaunin

Mér hlotnaðist sá heiður að flytja ávarp þegar verðlaun sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur voru afhent í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn í fundarsal Evrópuráðsins í Strassborg í gær. Þeim er ætlað að heiðra fólk sem hefur stuðlað að auknu kynjajafnrétti í heiminum eða unnið gegn kynbundnu ofbeldi með ráðum og dáð. Í máli mínu rakti ég kjör Vigdísar á sínum tíma og allan hennar mikla atbeina á forsetastóli. Verðlaunin hlutu grísku grasótarsamtökin Irida Women's Center sem vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun kvenna og gegn kynbundnu ofbeldi.

Ákvörðun um Vigdísarverðlaunin var tekin þegar Ísland fór með formennsku í Evrópuráðinu og átti Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, frumkvæði að því að til þeirra var stofnað. Fyrir það á Katrín þakkir skildar og mér þótti vænt um að geta fært verðlaunahöfum kærar kveðjur Vigdísar sjálfur. Ég hringdi í hana fyrir viðburðinn og hún var þá eins ljúf og hress og ævinlega, sem fyrr frábær fulltrúi Íslands og íslensks samfélags.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 25. júní 2024.

  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ávarpaði einnig athöfnina og afhenti Evrópuráðinu verðlaunagripinn Kviku eftir listakonuna Brynhildi Þorgeirsdóttur við hátíðlega athöfn.
  • Opnunarávarp við afhendingu fyrstu Vigdísarverðlaunanna í Evrópuráðsþinginu í Strassborg í Frakklandi.
  • Fulltrúi grasrótarsamtakanna Irida Women‘s Center frá Grikklandi tekur við fyrstu Vigdísarverðlaununum, Vigdís Prize for Women‘s Empowerment, frá forseta Evrópuráðsþingsins, Theodoros Rousopoulos.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar