Við Eliza nutum þess í gær að taka á móti þeim frækna hópi sem senn heldur til Frakklands og heldur merki Íslands á lofti á Ólympíuleikunum í París. Við óskuðum þeim góðs gengis og báðum ekki um annað en að hver gerði sitt besta – og aðeins betur ef það er það sem þarf eins og segir í laginu.
Alls munu fimm keppa fyrir Íslands hönd og eru vel að því komin en keppendurnir mættu auðvitað vera fleiri. Sú verður eflaust raunin þegar afreksstefna í íþróttum verður efld hér á landi. Það kostar sitt en það fé má finna með því að efla lýðheilsu, hugsa forvirkt á þeim vettvangi og spara þannig mikla fjármuni þegar allt kemur til alls. Ég óska fulltrúum okkar í París alls velfarnaðar. Koma svo, áfram Ísland!
Og auðvitað óska ég stelpunum okkar góðs gengis í fótboltaleiknum gegn Þýskalandi á Laugardalsvellinum í dag. Fjölmennið á völlinn, öll þið sem hafið á því tök - ég veit að stelpurnar á Símamótinu munu mæta og styðja sín átrúnaðargoð!
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 28. júlí 2024.