Í gær flutti ég mitt síðasta ávarp á forsetastóli, við bestu kringumstæður sem ég gat hugsað mér. Fátt er magnaðra en fjallasalir og fögur víðerni, hverir og fossar, hálendi Íslands í allri sinni dýrð. Og fátt er skemmtilegra en útivist í góðum félagsskap, göngur, söngur og hvaðeina. Veislur og viðburðir í stórborgum komast ekki í hálfkvisti við slíka afþreyingu í slíku umhverfi.
Því þótti mér einstaklega vænt um að halda dálitla tölu í Kerlingarfjöllum, við upphaf utanvegahlaupsins Kerlingarfjöll Ultra. Ég minntist fyrst frumherjanna sem reistu þar skíðaskála um miðja síðustu öld og ráku við miklar vinsældir áratugum saman. Ég leyfði mér að nefna þar sérstaklega Eirík Haraldsson sem kenndi mér í menntaskóla á sínum tíma og Valdimar Örnólfsson, þann þjóðþekkta íþróttafrömuð. Hann lagði svo sannarlega sitt af mörkum til að bæta heilsu landsmanna á marga vegu.
„Þið eruð geggjuð!“
Ég nefndi einnig að margt hefði breyst frá því að fyrstu mannvirkin voru reist í Kerlingarfjöllum, þeim ægifagra stað. Nú eru þar glæsileg gistihús en blessunarlega falla þau vel að viðkvæmri náttúru. Virðing virðist borin fyrir umhverfi og sögu.
Þá beindi ég máli mínu til þeirra hlaupara sem biðu eftir að spretta úr spori. Þar minnti ég á mikilvægi þess að við reyndum öll að bera ábyrgð á eigin heilbrigði eftir bestu getu. Í mínu embætti hef ég lagt áherslu á lýðheilsu í víðum skilningi. Við munum aldrei mæta auknum áskorunum á sviði heilsu og hjúkrunar með því einu að byggja fleiri sjúkrahús og hjúkrunarheimili, fjölga heilbrigðisstarfsfólki, þróa og selja fleiri lyf. Við þurfum að hugsa forvirkt, fyrirbyggja vanda frekar en að mæta honum síðar. Öll okkar hvatning í þeim efnum verður líka að vera með jákvæðum formerkjum og hvert og eitt okkar þarf að finna hreyfingu og lífsstíl við hæfi.
Með þeim orðum hvatti ég hlauparana í Kerlingarfjöllum til dáða og náði um leið að nota orð sem ég hef ætíð ætlað að hafa í ávarpi en ekki fundið hentugt tilefni fyrr en nú. „Þið eruð geggjuð!“ sagði ég um leið og liðið var ræst út. Þrjár leiðir voru í boði, 12 kílómetrar, heilir 63 og svo 22 kílómetra hringur sem ég tók þátt í.
Sjaldan eins örmagna
Farið var um magnað land, Hveradali, upp að Kerlingu og aðrar slóðir. En sjaldan hef ég verið eins örmagna. Þetta var mikil þrekraun og ég held ég hafi aðeins náð í mark vegna þess að tvær kjarnakonur komu mér til bjargar þegar langt var liðið á hlaupið. Önnur færði mér salttöflu og hin orkudrykksflösku. Auðvitað var maður of þreyttur til að spyrja þær til nafns en þið stelpur sem komuð að mér sitjandi við stein: Bestu þakkir! Þessir vinargreiðar voru ómetanlegir.
Síðasta kaflann náði ég aðeins að klára með því að söngla í sífellu stefið góða í laginu Kvaðning með Skálmöld: „Höldum nú á feigðarinnar fund, þetta ferðalag er köllun vor og saga. Vaskir menn á vígamóðri stund og Valhöll bíður okkar allra þá.“
Gleðin við að komast á leiðarenda var engu lík. Við getum öll verið meistarar í eigin lífi, á okkar eigin forsendum. Eitt sinn átti ég mér þá von að komast á Ólympíuleikana en svo sér maður að ekki geta allir draumar ræst. Lífið er langhlaup og best að fara - eftir því sem tök eru á - þá leið sem liggur næst hug manns og hjarta. Njótum dagsins!
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 28. júlí 2024.