Enn rennur hraun í grennd við Grindavík. Og enn stöndum við í þakkarskuld við einvalalið sem reist hefur varnargarða, sérfræðinga sem rýna í gang gossins og allt annað fólk sem sinnir almannavörnum af ýmsu tagi. Við hemjum ekki ægimátt náttúruaflanna en ráðum hvernig við bregðumst við hverju sinni. Nú þurfum við að sjá hvernig þessum eldsumbrotum vindur fram og tökum ákvarðanir eftir því. Þessir viðburðir snerta okkur öll sem byggjum þetta land. Hjartað slær með Grindvíkingum og sendi ég þeim hlýjar kveðjur. Stöndum saman og vonum það besta.
Myndina tók Björn Oddsson, starfsmaður hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í þyrluflugi með Landhelgisgæsla Íslands/Icelandic Coast Guard yfir Sundhnúkagígaröðina skömmu eftir að gos hófst í dag.
Birtist á facebook-síðu forseta 29. maí 2024.