Forsetamerki skátahreyfingarinnar
Forsetamerki skátahreyfingarinnar hefur verið veitt dróttskátum og rekkaskátum árlega síðan 1965 en fyrstu merkin veitti Ásgeir Ásgeirsson forseti 24. apríl það ár. Í lok árs 2012 höfðu 1302 dróttskátar og rekkaskátar hlotið Forsetamerkið frá því það var fyrst afhent.
Viðurkenningin táknaði í upphafi lok dróttskátaþjálfunarinnar, en frá árinu 2008 eru það rekkaskátar sem þiggja merkið úr hendi forseta Íslands. Forsetamerkið er staðfesting þess að skátinn hafi hlotið tiltekna þjálfun í skátahreyfingunni og með starfi sínu talist verður þess að hljóta þessa viðurkenningu.
Skilyrði fyrir afhendingu þess er að skátinn sé 17-20 ára, hafi stundað þróttmikið rekkaskátastarf samfellt í tvö ár hið minnsta, hafi lokið tilskildum námskeiðum og verkefnum og hafi lifað í anda skátaheitis og skátalaga.
Forsetamerkið er afhent árlega í Bessastaðakirkju af forseta Íslands, verndara íslenskra skáta. Viðstaddir athöfnina eru gjarnan foreldrar væntanlegra forsetamerkishafa, félagsforingjar og stjórnir skátafélaga, stjórn og ráð Bandalags íslenskra skáta, auk annarra góðra gesta. Að athöfninni í Bessastaðakirkju lokinni býður forseti kirkjugestum til móttöku í Bessastaðastofu.