Þjóðernishyggja, þjóðerniskennd og ættjarðarást. Þetta voru meginumfjöllunarefni fyrirlesturs sem ég flutti við Fróðskaparsetur Færeyja, háskólann þar í landi, í tveggja daga heimsókn minni í nýliðinni viku. Þar færði ég meðal annars rök fyrir því að þjóðernishyggja sé hvergi nærri á undanhaldi í heiminum.
Þjóðernishyggja geti verið jákvætt hreyfiafl en um leið þurfum við að geta horfst í augu við myrkari hliðar hennar, hér á landi sem annars staðar. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina „Nationalism in Turbulent Times: Lessons for Small Nations in the North Atlantic” og hann má lesa í heilu lagi hér.
Eitt af því sem skilgreinir þjóðir er samband þeirra við nágrannalöndin. Þar erum við Íslendingar heppnir þegar kemur að nágrönnum okkar í Færeyjum. Þetta var önnur heimsókn mín þangað sem forseti og ánægjulegt að geta styrkt enn frekar tengslin við vinaþjóð okkar. Ég átti fund með lögmanni Færeyja, Bárði á Steig Nielsen, borgarstjóra Þórshafnar, Heðin Mortensen, og fleirum. Fróðlegt var að heyra um þau áform að reisa nýja þjóðarhöll í höfuðstaðnum, íþróttahöll sem mun taka allt að 4500 manns í sæti og standast allar nútímakröfur. Hún á að verða tilbúin innan 20 mánaða. Hver veit nema maður skelli sér á landsleik í Þórshöfn þegar þar að kemur.
Þá var mér sérstök ánægja að færa þakkir frá íslensku þjóðinni til hóps Færeyinga sem sýndi einstakt hugrekki og þrautseigju við björgunarstörf, eftir slys Flugfélags Íslands á Mykinesi árið 1970. Við hátíðlega athöfn í Þórshöfn sæmdi ég þau riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir björgunarafrekið.
Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.