Um helgina lá leið mín í Reykjanesbæ þar sem ég heimsótti aðgerðastjórnstöð Almannavarnarnefndar Suðurnesja. Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri tók á móti mér ásamt öflugu teymi sem starfar þar allan sólarhringinn við vöktun og aðgerðastjórnun á svæðinu umhverfis Grindavík. Ég heimsótti líka stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík og ræddi við það einvalalið sem þar er á stöðugri vakt. Á vettvangi í Grindavík hafa liðsmenn björgunarsveita og fleiri svo sinnt hjálp í viðlögum. Við Íslendingar erum heppnir að eiga her sjálfboðaliða og annarra sem eru alltaf til taks þegar í nauðir rekur.
Á heimleið frá Reykjanesbæ staldraði ég við í bakaríinu Kökulist í Njarðvík. Þar var mér óvænt boðið að líta „bak við tjöldin“ og heilsa upp á sjálfa bakarana, sem reyndust vera vaskir menn frá Sýrlandi og Úkraínu. Allir búa þeir við stríð í sínum heimalöndum og Jón Rúnar Arilíusson bakarameistari sagði mér frá því að þegar jarðhræringarnar hófust á Reykjanesi hefðu þeir óttast að þurfa kannski á ný að leggja á flótta til að koma fjölskyldum sínum í öruggt skjól. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að við tryggjum góða upplýsingagjöf til þeirra samborgara okkar sem hafa ekki enn náð tökum á íslensku.
Samstaða Grindvíkinga og þrautseigja er einstök. Það fann ég heldur betur þegar ég sótti körfuboltaleiki kvenna- og karlaliðs Grindvíkinga á laugardaginn. Þeir biðja ekki um ölmusu heldur sanngirni og sjálfsagðan stuðning á örlagastundu. Þjóðin hefur svarað í verki, boðið húsaskjól og hvers kyns aðra aðstoð. Sá atbeini er til merkis um þá einingu sem við sýnum þegar þörfin krefur. Þann þjóðaranda þakkaði ég fyrir í stuttu spjalli og ávarpi í sjónvarpsþætti Gísla Marteins Baldurssonar á föstudaginn var og minnti um leið á að við þurfum að hafa fast land undir fótum áður en við getum gert áætlanir til framtíðar. Við skulum því áfram standa saman í þeirri óvissu sem framundan er.
Nú um helgina var alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Þar flutti ég ávarp við árlega athöfn við Landspítalann í Fossvogi. Yngsti Íslendingurinn sem látist hefur í umferðinni á þessu ára var átta ára drengur, Ibrahim Shah Uz-Zaman. Í máli mínu kom ég meðal annars framfæri þeirri ósk fjölskyldu Ibrahims, sem vill þannig halda nafni hans á lofti, að allt verði gert til að tryggja enn frekar öryggi fólks í umferðinni.
Vikan sem leið var annasöm að vanda. Á þriðjudaginn var flutti ég ávarp á heilbrigðisþingi þar sem sjónum var beint að nýtingu stafrænna gagna og gervigreindar í heilbrigðisþjónustu. Sá dagur, 14. nóvember, var líka alþjóðadagur sykursýki og tók ég af því tilefni á móti Dropanum, styrktarfélagi barna með sykursýki. Á miðvikudag flutti ég ávarp á 25 ára afmælishátíð Samtaka ferðaþjónustunnar og afhenti í kjölfarið nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar. Á degi íslenskrar tungu á fimmtudag þakkaði ég þeim kennurum sem kenna íslensku sem annað mál, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þá var líka alþjóðadagur barna í sorg. Því sat ég málþing Arnarins, minningar- og styrktarsjóðs fyrir börn og unglinga sem misst hafa náinn ástvin og heimsótti Sorgarmiðstöðina í Hafnarfirði. Þar sinnir fólk mikilvægu starfi við að styðja syrgjendur.
Á föstudaginn flutti ég setningarávarp á Barnaþingi sem fram fór í Hörpu í Reykjavík. Þingið er vettvangur fyrir börn til þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðamenn. Á föstudag var einnig 70 ára afmæli Blóðbankans og ávarpaði ég afmælismálþing af því tilefni.
Frekari upplýsingar má sem fyrr finna á vefsíðu forsetaembættisins, www.forseti.is. Góðar stundir.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 21. nóvember 2023.